Ferill 369. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 585  —  369. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Fegrunar- og snyrtiefni eru efni eða efnablöndur sem ætlaðar eru til notkunar á mannslíkamann, svo sem hörund, hár, neglur, varir, tennur eða slímhúð í munni. Fegrunar- og snyrtiefnum er einkum ætlað að hreinsa, breyta útliti, veita ilm, bæta líkamsþef eða vernda og halda líkamshlutum í góðu ástandi.
     b.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                  Markmið þessara laga er að eiturefni, hættuleg efni og fegrunar- og snyrtiefni séu notuð með gát og varúð þannig að hvorki hljótist af tjón á mönnum eða dýrum né matvæli eða umhverfi mengist af efnunum.

2. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 17. gr. A, sem orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um framleiðslu, innflutning, dreifingu, sölu, notkun, innihald, eftirlit og merkingu fegrunar- og snyrtiefna, hvort sem efnin flokkast sem eiturefni eða hættuleg efni eða ekki.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Yfirstjórn mála er varða eiturefni, hættuleg efni og fegrunar- og snyrtiefni er í höndum umhverfisráðherra.
     b.      Á eftir 5. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Hollustuvernd ríkisins er heimilt að taka gjald fyrir vinnu við og útgáfu starfsleyfa til handa þeim sem starfa við garðaúðun í atvinnuskyni, starfsleyfa til handa meindýraeyðum og leyfisskírteina fyrir notendur varnarefna og eiturefna, viðurkenningu sótthreinsiefna og áritun innflutningsskjala.
                  Hollustuvernd ríkisins er heimilt að taka gjald fyrir vinnu stofnunarinnar við skráningu, breytingu á skráningu, undanþágu frá skráningu, samhliðaskráningu og endurnýjun á skráningu varnarefna. Í skráningu varnarefna felst m.a. úttekt sérfræðinga á þörf fyrir notkun viðkomandi efna og á áhættu við notkun þeirra.
                  Þá er Hollustuvernd ríkisins heimilt að krefja umsækjanda, sbr. 6. og 7. mgr., um endurgreiðslu alls kostnaðar sem fellur til vegna sérstakra rannsókna eða úttekta utanaðkomandi sérfræðinga, enda hafi verið haft samráð við umsækjanda um fyrirhugaðar rannsóknir eða úttektir og umsækjanda gefinn kostur á að draga umsókn sína til baka áður en til slíks kostnaðar er stofnað.
                  Ráðherra getur, að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins, sett gjaldskrá vegna þeirrar starfsemi sem talin er upp í 6., 7. og 8. mgr. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með bréfi, dags. 13. júní 2000, skipaði umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, nefnd til að endurskoða lög nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.
    Nefndinni er sérstaklega ætlað að huga að löggjöf Evrópusambandsins og lagaþróun í Evrópu á sviði eiturefna og hættulegra efna og efna almennt, svo sem í tengslum við snyrtivörur, og að fenginni reynslu af framkvæmd gildandi laga. Í nefndinni eiga sæti:
    Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneyti, formaður, Kristín Linda Árnadóttir, deildarsérfræðingur í umhverfisráðuneyti, dr. Þorkell Jóhannesson læknir, fyrrverandi prófessor, Sigurbjörg Gísladóttir, forstöðumaður eiturefna- og hollustuverndarsviðs Hollustuverndar ríkisins, Víðir Kristjánsson, deildarstjóri hjá Vinnueftirliti ríkisins, Gunnlaug Einarsdóttir, efnafræðingur hjá Hollustuvernd ríkisins, Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands, og Sigurbjörg Sæmundsdóttir, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, sem er ritari nefndarinnar.
    Nefndinni er ætlað að skila tillögum í formi frumvarps til laga um eiturefni og hættuleg efni til ráðherra vorið 2001.
    Þegar nefndin tók til starfa kom fljótlega í ljós að nauðsynlegt væri að lagfæra sem fyrst nokkur atriði í lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum, og ekki væri hægt að bíða með þær lagfæringar þar til heildarendurskoðun yrði lokið með samþykkt nýrra laga sem vænta mætti árið 2002. Þau atriði sem hér um ræðir varða gjaldtökuheimildir, hvar fegrunar- og snyrtiefnum skal komið fyrir í löggjöf og um yfirstjórn málaflokksins. Ýmist er um að ræða nauðsynlegar breytingar vegna þess að ekki er tekið á málum í lögum eða til að eyða réttaróvissu. Nefndin hefur því lagt til að sem fyrst verði gerðar breytingar á lögunum í þessu skyni og er frumvarp þetta fram komið í tilefni þess.
    Þær breytingar sem fram koma í frumvarpi þessu felast fyrst og fremst í eftirfarandi:
    Lagt er til að sett verði í lögin skýr og ótvíræð ákvæði um að fegrunar- og snyrtiefni falli undir lögin. Nauðsynlegt er að taka á snyrtivörum í þessari löggjöf til að tryggja að á markaði séu ekki vörur sem innihalda eiturefni og hættuleg efni. Þannig á að vera tryggt að við eðlilega notkun séu fegrunar- og snyrtiefni ekki skaðleg heilsu manna.
    Gerð er tillaga um að Hollustuvernd ríkisins geti tekið gjald fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast samkvæmt lögum um eiturefni og hættuleg efni. Þetta er í samræmi við önnur lög sem stofnunin starfar eftir og einnig er það eðlilegt í alla staði að þjónusta við fyrirtæki og einstaklinga sé greidd af þeim sem þjónustunnar njóta.
    Loks er gerð tillaga sem telst hrein leiðrétting, þess efnis að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum en málaflokkurinn færðist í reynd milli ráðuneyta 1. júní 1994 án þess þó að þessum lögum væri breytt í því skyni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni eru fegrunar- og snyrtiefni skilgreind sem efni eða efnablöndur sem ætlaðar eru til notkunar á mannslíkamann, svo sem hörund, hár, neglur, varir, tennur eða slímhúð í munni. Dæmi um aðra hluta líkamans sem fegrunar- og snyrtiefni eru ætluð til notkunar á eru ytri kynfæri. Hér er því ekki um tæmandi talningu að ræða. Fegrunar- og snyrtiefnum er einkum ætlað að hreinsa, breyta útliti, veita ilm, bæta líkamsþef eða vernda og halda líkamshlutum í góðu ástandi. Skilgreining er að mestu sú sama og í reglugerð nr. 776/1998, um snyrtivörur, og er tekið mið af skilgreiningu í tilskipun 76/768/EBE, um samræmingu laga aðildarríkjanna um snyrtivörur, ásamt síðari breytingum.
    Lagt er til í b-lið að við 1. gr. bætist ný málsgrein sem kveður á um það markmið laganna að nota beri efni og vörur sem lögin fjalla um með gát og varúð þannig að hvorki hljótist af tjón á mönnum eða dýrum né matvæli eða umhverfi mengist af efnunum. Sama ákvæði er í gildandi lögum en fegrunar- og snyrtiefnum hefur verið bætt inn, sbr. a-lið.

Um 2. gr.

    Lagt er til að við bætist ný grein sem kveður á um heimild ráðherra til þess að setja í reglugerð ákvæði um framleiðslu, innflutning, dreifingu, sölu, notkun, innihald og merkingu fegrunar- og snyrtiefna, hvort sem efnin flokkast sem eiturefni eða hættuleg efni eða ekki. Nokkur óvissa hefur ríkt um það hvort snyrtiefni féllu undir lögin og er hér með gerð tillaga um að úr því verði bætt. Hér er því ekki um nýtt eftirlit að ræða. Óeðlilegt, ef ekki ógerlegt, er að skilja á milli þessara efna eftir því hvort um er að ræða fegrunar- og snyrtiefni sem innihalda eiturefni og hættuleg efni eða ekki og jafnvel skipta eftirlitinu þá milli tveggja aðila. Best er að hafa þetta á einni hendi.

Um 3. gr.

    Málefni eiturefna og hættulegra efna fluttust til umhverfisráðuneytisins 1. júní 1994 án þess að gerð væri viðeigandi breyting í þessari löggjöf. Því er lagt til í a-lið að kveðið verði á um að yfirstjórn mála, er varða eiturefni, hættuleg efni og fegrunar- og snyrtiefni, verði í höndum umhverfisráðherra.
    Í b-lið er lagt til að á eftir 5. mgr. komi fjórar nýjar málsgreinar þar sem Hollustuvernd ríkisins er veitt heimild til gjaldtöku vegna þeirra verkefna sem talin eru þar upp.
    Lagt er til að í nýrri 6. mgr. verði Hollustuvernd ríkisins veitt heimild til að taka gjald fyrir vinnu við og útgáfu starfsleyfa til handa þeim sem starfa við garðaúðun í atvinnuskyni, en það eru leyfi til handa þeim sem stunda úðun garða í einkaeign og almenningseign með efnum í hættuflokki X, A, B og C, svo og starfsleyfa meindýraeyða, en það eru leyfi til að fá að kalla sig meindýraeyði og leyfi til að eyða rottum, músum og skordýrum annars staðar en í tengslum við garðyrkju og landbúnað. Vinna Hollustuverndar ríkisins við slík leyfi felst m.a. í upplýsingagjöf, útsendingu til umsagnaraðila, mati stofnunarinnar á hæfi og þörf umsækjanda til notkunar varnarefna og til að starfa við garðaúðun eða eyðingu meindýra.
    Gjald fyrir leyfisskírteini vegna notkunar varnarefna og eiturefna er innheimt hjá sýslumönnum eða lögreglustjórum í samræmi við lög um aukatekjur ríkissjóðs. Fagleg vinna við slíkar umsóknir er hins vegar alfarið í höndum Hollustuverndar og hafa engar greiðslur komið til stofnunarinnar vegna þessarar vinnu. Ákveðið hefur verið að umsóknir um leyfisskírteini vegna notkunar varnarefna og eiturefna verði framvegis afgreiddar hjá Hollustuvernd ríkisins og er því lagt til að stofnuninni verði heimilt að taka gjald fyrir kostnaði af vinnu við útgáfu slíkra skírteina. Vinna Hollustuverndar ríkisins við slík leyfi felst m.a. í upplýsingagjöf, öflun umsagna og mati stofnunarinnar á hæfi og þörf umsækjanda til notkunar varnarefna á grunni framkominna gagna. Einnig er lagt til að heimilt verði að taka gjald fyrir viðurkenningu sótthreinsiefna en vinna Hollustuverndar ríkisins vegna þessa felst í að skoða gögn sem fylgja hverri umsókn og meta hvort varan geti haft óæskileg áhrif á umhverfið eða fyrir þá sem þurfa að nota vöruna við vinnu sína og hvort merkingar vöru eru fullnægjandi. Samhliða frumvarpi þessu þarf að leggja fram frumvarp til að fella úr gildi 2. og 3. tölul. 12. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
    Nokkur vinna fylgir áritun innflutningsheimilda fyrir Hollustuvernd ríkisins. Kanna þarf hvort um er að ræða sérstakar takmarkanir á innflutningi efnisins og sé um ný efni að ræða þá þarf að kalla eftir upplýsingum um efnainnihald. Jafnframt er innflutningur skráður í gagnabanka stofnunarinnar.
    Í tillögu að nýrri 7. mgr. er m.a. fjallað um skráningu varnarefna, þ.e. eiturefna og hættulegra efna til notkunar í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra, sbr. illgresiseyða og plöntulyf. Vinna við skráningu felur m.a. í sér úttekt sérfræðinga á þörf fyrir notkun viðkomandi efna og á áhættu við notkun þeirra. Skoðuð eru m.a. hugsanleg áhrif á heilsu manna og dýra, skaðleg áhrif á umhverfið og hugsanleg uppsöfnun efna í afurðum. Jafnframt er metið öryggi umbúða og að vara sé tryggilega merkt þannig að gætt sé öryggis notenda, umhverfis og neytenda afurða. Sækja ber um skráningu varnarefna til umhverfisráðuneytisins en Hollustuvernd ríkisins fer með faglega umfjöllun um málið og afgreiðir það til lokaafgreiðslu umhverfisráðherra. Skráning varnarefna tekur ætíð nokkra mánuði og oft mun lengri tíma. Ekki er um samfellda vinnu að ræða heldur ganga málin fram og til baka milli Hollustuverndar og umsækjanda þar til þau verða endanlega afgreidd til umhverfisráðuneytisins. Aðkeyptur sérfræðingur kemur að afgreiðslu flestallra mála en lögð er til heimild fyrir gjaldtöku fyrir slíka vinnu í tillögu að nýrri 8. mgr. Vinna við samhliðaskráningu og undanþágu frá skráningu er sambærileg vinnu við nýskráningu að því undanskildu að umfang nýrra gagna er að jafnaði minna og undanþáguumsóknir, sem oftast eru til komnar vegna sérstakra vandamála, eru unnar á mun skemmri tíma.
    Lagt er til í nýrri 8. gr. að Hollustuvernd ríkisins sé heimilt að krefja umsækjanda, sbr. 6. og 7. mgr., um endurgreiðslu alls kostnaðar sem fellur til vegna sérstakra rannsókna eða úttekta utanaðkomandi sérfræðinga, enda hafi verið haft samráð við umsækjanda sé krafist sérstakra rannsókna eða úttekta og umsækjanda gefinn kostur á að draga umsókn sína til baka áður en til slíks kostnaðar er stofnað. Eðlilegt er að kostnaður vegna rannsókna eða úttekta sérfræðinga verði greiddur af þeim sem sækir um leyfi eða skráningu. Hér er þó um að ræða heimildarákvæði sem leyfir stofnuninni að krefja umsækjanda um endurgreiðslu kostnaðar. Við sérstakar aðstæður er hugsanlegt að stjórnvöld kjósi að nýta ekki þessa heimild. Í nýrri 9. mgr. er kveðið á um að ráðherra geti sett gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem Hollustuvernd ríkisins er falið að annast samkvæmt 6., 7. og 8. mgr. Nauðsynlegt þykir að stofnunin geti tekið gjald fyrir þau þjónustuverkefni sem hún innir af hendi. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Er þetta í samræmi við ákvæði laga sem stofnunin starfar eftir, sbr. lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli, sem nýlega var lagt fram á Alþingi.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 52/1988,
um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að skilgreina yfirstjórn málaflokksins og treysta gjaldtökuheimildir.
    Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins er Hollustuvernd ríkisins heimilt að innheimta kostnað vegna þjónustu og leyfisveitinga um meðferð eiturefna og hættulegra efna.
    Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að Hollustuvernd ríkisins innheimti um 0,5 m.kr. auknar tekjur án þess að útgjöld stofnunarinnar aukist.